„Þetta var ekki slæmt fyrir sjöunda besta leikmanninn í deildinni," sagði Kobe Bryant eftir sigurinn á Phoenix Suns í nótt en hann varð þá fyrsti leikmaðurinn á tímabilinu til að brjóta 40 stiga múrinn. Bryant tók því greinilega persónulega að hann var settur í sjöunda sætið á netlista yfir 500 bestu leikmenn NBA-deildarinnar.
Kobe Bryant skoraði 48 stig í þessum 99-83 sigri Los Angeles Lakers á Phoenix Suns og hefur þar með skorað 25 stig eða meira í undanförnum fimm leikjum Lakers-liðsins. Þetta var janframt 108. leikur hans á ferlinum þar sem að hann brýtur 40 stiga múrinn sem er það langmesta hjá leikmönnum deildarinnar undanfarin fimmtán ár.
„Ef ég spila einn slakan leik eins og á móti Denver þá fara allir að öskra á breytingar og tala um að ég sé orðinn of gamall. Það var bara slakur leikur hjá manni með meiddan úlnlið," sagði Kobe Bryant sem skoraði "bara" 16 stig á móti Denver á Nýársdag. Í framhaldinu var hann með 26 stig á móti Memphis á sunnudaginn, 39 stig á móti Golden State, 30 stig á móti Portland, 37 stig gegn Houston og svo 48 stig í leiknum í nótt.
Kobe, sem verður 34 ára í ágúst, er með 29,5 stig, 5,7 fráköst og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í fyrstu 11 leikjum tímabilsins. Hann er næststigahæsti leikmaður deildarinnar á eftir LeBron James hjá Miami Heat sem er með 29,7 stig, 8,0 fráköst og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í leik í 9 leikjum.
Flestir 40 stiga leikir undanfarin 15 ár:
Kobe Bryant 108
Allen Iverson 74
LeBron James 46
Tracy McGrady 45
PSG
Manchester City