„Þetta var bara alvöru bikarleikur. Þetta var góð auglýsing fyrir körfuna, harka og fjör," sagði Örvar Kristjánsson, þjálfari Fjölnis, eftir að liðið féll út gegn KR í Powerade-bikarnum í körfubolta. KR vann leikinn 82-74 í DHL-höllinni í dag.
„Það var mikið stress í gangi enda var þetta sjónvarpsleikur og svona. Ég er bara rosalega stoltur af því hvernig strákarnir brugðust við. Með smá heppni hefðum við getað tekið þetta. Við vorum að klikka á mörgum opnum skotum og vítum en gáfum KR-ingum helvíti góðan leik."
KR hafði undirtökin í leiknum lengst af en undir lokin var þó spenna og ýmislegt gat gerst.
„Það sem ég lagði upp með var að spila maður á mann í 40 mínútur. Við höfum verið slakir í „maður á mann" vörninni okkar en mér fannst hún mjög góð í dag á löngum köflum. KR-ingar hafa vel mannað lið og kláruðu vel," sagði Örvar.
„Það verður hörkuleikur en við tökum með okkur það jákvæða úr þessum leik. Eins og deildin er að spilast þá er hún ótrúlega jöfn og hver einasti leikur er eins og bikarleikur."
Körfubolti