Lífið

Sýna glóðvolgar nýjungar

Arkitektarnir Helga Guðrún Vilmundardóttir og Árny Þórarinsdóttir sýna nýjar vörur frá Stáss á sýningu Handverks og hönnunar í Ráðhúsinu.
Arkitektarnir Helga Guðrún Vilmundardóttir og Árny Þórarinsdóttir sýna nýjar vörur frá Stáss á sýningu Handverks og hönnunar í Ráðhúsinu. Fréttablaðið/Stefán
„Við erum mjög spenntar. Við höfum ekki tekið þátt áður og verðum þarna í góðum hópi fólks," segir Árný Þórarinsdóttir en hún og Helga Guðrún Vilmundardóttir mynda saman hönnunartvíeykið Stáss og munu sýna hálsmen og heimilisvörur á sýningu Handverks og hönnunar í Ráðhúsinu á fimmtudag.

„Við munum sýna nýja línu hálsmena úr dufthúðuðu áli, bæði með rúskinnsreimum og keðjum. Við frumsýnum einnig glænýja heimilisvöru sem framleidd er hér á landi og hefur sterka skírskotun í íslenska byggingahefð," segir Árný leyndardómsfull og vill sem minnst gefa upp um vöruna, hún muni koma glóðvolg úr framleiðslu á sýninguna.

Fleiri nýjungar eru á leiðinni en Árný og Helga Guðrún hafa komið sér fyrir með vinnustofu í Netagerðinni á Mýrargötu. „Við erum að vinna í nýjum jólavörum og erum líka með nýlega vegglímmiða, öðruvísi en við höfum verið með. Svo erum við aðeins farnar að undirbúa HönnunarMars. Það er nóg að gera," segir hún og hlakkar greinilega til sýningarinnar. Hún verður enda vegleg í ár en hátt í 70 hönnuðir og handverksmenn taka þátt og þar af um 20 nýliðar.

Sýning Handverks og hönnunar verður opnuð fimmtudaginn 3. nóvember klukkan 15. Hún stendur yfir til mánudagsins 7. nóvember. Opið er frá klukkan 10 til 19 virka daga og 10 til 18 um helgar.

- rat






Fleiri fréttir

Sjá meira


×