Lífið

Foringinn fékk tvo rándýra gítara

glæsilegar gjafir Björgvin Halldórsson alsæll með gítarana tvo sem hann fékk í afmælisgjöf á laugardaginn.fréttablaðið/anton
glæsilegar gjafir Björgvin Halldórsson alsæll með gítarana tvo sem hann fékk í afmælisgjöf á laugardaginn.fréttablaðið/anton
„Ég hef alltaf verið hrifinn af fallegum gíturum,“ segir tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson, eða Foringinn eins og hann er gjarnan kallaður innan bransans.

Hann fékk tvo glæsilega gítara í sextugsafmælisgjöf á laugardagskvöld, annars vegar afmælisendurgerð af Fender Telecaster frá fæðingarári Björgvins, 1951, sem útgáfufyrirtækið Sena gaf honum og hins vegar Dobro-kjöltugítar sem hann fékk frá hljómsveitinni sinni.

Nafn Björgvins var grafið í fyrrnefnda gítarinn og einnig í ólina sem honum fylgdi. Hann var keyptur í Hljóðfærahúsinu og var sá eini af þessari tegund sem var til sölu. Samkvæmt starfsmanni Hljóðfærahússins kostaði gítarinn um 250 þúsund krónur.

„Ég á fyrir þrjá Telecastera en ég á engan svona,“ segir Björgvin, sem er mikill gítarsafnari og á vel yfir þrjátíu gítara. Hann á einnig nokkra kjöltugítara en engan órafmagnaðan eins og hann fékk um helgina. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kostaði hann hátt í 100 þúsund krónur. „Þetta er náttúrlega bilun,“ segir hann um gítarsafnið sitt.

Gítargjöf Senu til Björgvins er sérstaklega vegleg, sem er skiljanlegt í ljósi þess að gæfuríkt samstarf þeirra hefur staðið yfir frá árinu 1977, þegar fyrirtækið hét Hljómplötuútgáfan.

„Okkur þótti það svo brjálæðislega vel við hæfi að velja eitthvað sem væri jafngamalt í hönnun og maðurinn sjálfur,“ segir Eiður Arnarsson, útgáfustjóri Senu. „Enda ljómaði hann alveg þegar hann fékk þetta.“

Björgvin segir að þrennir afmælistónleikar sínir í Háskólabíói um helgina hafi verið algjört ævintýri.

„Þarna var gott fólk komið til að hlusta og hafa gaman. Við tókum þetta svolítið öðrum tökum. Við sátum á stólum, spjölluðum við fólkið og höfðum þetta kósí.“

Þrjú þúsund vinakveðjur á Facebook um helgina yljuðu honum einnig um hjartaræturnar.

Til stendur að gefa tónleikana út á mynddisk fyrir jólin, auk þess sem ný plata með Björgvini og Hjartagosunum er væntanleg í sumar. Fleira er fram undan hjá Foringjanum, þar á meðal tónleikar á Blúshátíð í Reykjavík í kvöld og 200 ára afmælistónleikar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri 17. júní með Diddú. Fjörutíu ára afmæli Brimklóar á næsta ári verður einnig haldið hátíðlegt.

„Ég hef aldrei verið í betra söngstuði eins og núna. Ég er svo seinþroska,“ segir Björgvin hress.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×