Lífið

Styðja fórnarlömb á safnplötum

amiina Hljómsveitin Amiina á lag á safnplötu til styrktar fórnarlömbum hamfaranna í Japan.fréttablaðið/anton
amiina Hljómsveitin Amiina á lag á safnplötu til styrktar fórnarlömbum hamfaranna í Japan.fréttablaðið/anton
Fjöldi íslenskra hljómsveita, þar á meðal Amiina, Eberg, Nóra og Rökkurró, kemur við sögu á tveimur safnplötum til styrktar fórnarlömbum harmfaranna í Japan.

Það er japanska útgáfufyrirtækið Rallye sem stendur fyrir safnplötunum. Þær heita Pray for Japan (with Music) Vol. 1 og Vol. 2. Sú fyrri er þegar komin út á iTunes úti um allan heim og sú síðari kemur út 6. apríl.

„Eigandi fyrirtækisins sendi út hjálparkall til að geta gefið út þessa safnplötu og bað um tónlist. Við erum búin að vera í svo miklu sambandi við Japana og við vorum öll í sjokki eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Það vildu allir leggja sitt af mörkum í verkefnið,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, samstarfsaðili Amiinu. Hljómsveitin er einmitt nýbúin að skrifa undir útgáfusamning við Rallye og kemur nýjasta plata hennar, Puzzle, út í Japan í næsta mánuði. Rallye hefur áður gefið út plötur með Eberg og Rökkurró í Japan en núna er Amiina sem sagt að bætast í hópinn.

Á meðal annarra íslenskra flytjenda á plötunum eru Hellvar, Kira Kira og 7oi sem samdi glænýtt lag fyrir útgáfuna. Erlendar indísveitir á borð við Au Revoir Simone og Kyte eiga einnig lög á plötunum. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×