Lífið

María Birta í einkaflugmannsnám

Verslunareigandi, kafari, leikkona og flugmaður. María Birta er með mörg járn í eldinum. Fréttablaðið/Vilhelm
Verslunareigandi, kafari, leikkona og flugmaður. María Birta er með mörg járn í eldinum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Áramótaheitið mitt var að gera eitthvað nýtt í hverri viku. Í þessari viku ákvað ég að læra flugmanninn en í þeirri síðustu litaði ég hárið á mér bleikt," segir María Birta Bjarnadóttir, leikkona og verslunareigandi.

María Birta stefnir á að skella sér í einkaflugmannsnám strax í haust en hana hefur lengi dreymt um að fljúga um loftin blá. „Mamma mín er flugfreyja og amma var flugfreyja. Mig langaði ekkert í það starf heldur dreymdi mig um að stýra vélinni," segir María Birta en hún er svo sannarlega með mörg járn í eldinum enda að undirbúa sig undir aðalhlutverkið í myndinni Svartur á leik ásamt því að reka tvær verslanir í miðbænum.

María Birta hefur ákveðið að sameina báðar búðir sínar, Altari og skóverslunina Maníu, í húsnæði þeirrar síðarnefndu „Vinkona mín kom með þessa hugmynd fyrir nokkrum dögum en ég var ekki alveg viss enda erfitt að loka einhverju sem þér þykir orðið svona vænt um. En það er auðveldara og hagstæðara að reka eina búð en tvær. Nú er ég byrjuð að pakka Altari ofan í kassa og ætla að fara að ráðast í breytingar á Maníu eftir nokkra daga," segir María Birta en Altari lokaði í gær.

„Ég var með köfun, að læra að spila á gítar og fara í einkaflugmanninn á lista yfir hluti sem ég vildi gera á þessu ári. Ég læri köfun í sumar, keypti mér gítar fyrir stuttu og búin að taka ákvörðun um flugnám. Þetta er því allt að smella." - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×