Lífið

Sigrún Lilja orðin metsöluhöfundur

Bók sem Sigrún Lilja tók þátt í að skrifa fór vel af stað þegar hún kom út í síðustu viku.
Bók sem Sigrún Lilja tók þátt í að skrifa fór vel af stað þegar hún kom út í síðustu viku.
„Ég varð orðlaus og er varla búin að ná þessu," segir Sigrún Lilja Guðjónsdóttir, hönnuður og framkvæmdastjóri Gyðja Collection.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu var Sigrún í hópi frumkvöðla sem skrifuðu bókina The Next Big Thing. Bókin kom út í Bandaríkjunum í síðustu viku og skaust strax ofarlega á metsölulista hjá bóksölurisanum Amazon.com, en árangurinn kom henni í hóp metsöluhöfunda í Bandaríkjunum.

„Ég var látin vita af þessu á föstudaginn. Bókaútgáfan hafði samband og tilkynnti mér að bókin væri orðin metsölubók eftir rúman sólarhring í sölu og ég búin að fá titilinn best-selling author í Bandaríkjunum," segir Sigrún.

„Mér var líka sagt að það væri plagg á leiðinni til mín frá samtökum metsöluhöfunda í Bandaríkjunum. Ég fékk einnig boð í athöfn í Los Angeles í október þar sem metsöluhöfundar verða heiðraðir."

Sigrún Lilja hefur byggt upp fylgihlutalínu sína Gyðja Collection síðustu ár og fyrir skömmu hóf hún framleiðslu á ilminum EFJ Eyjafjallajökull sem hefur vakið talsverða athygli í erlendum fjölmiðlum. Henni var boðið að skrifa í bókina í vor þegar hún var í sambandi við fyrirtæki sem er undir sama hatti og bókaútgáfan.

„Þeim fannst ég hafa farið öðruvísi leiðir í uppbyggingunni á merkinu mínu og spurðu hvort ég gæti hugsað mér að skrifa um hvaða aðferðir ég hefði notað," segir Sigrún að lokum.- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×