67 ára og í harðri neyslu Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar 10. febrúar 2011 06:00 Á Íslandi er kreppa, þar er allt skelfilegt og ömurlegt og enginn hefur ráð á neinu. Eða hvað? Hefði ég átt að giska hver væri raunveruleg neysla íslenskrar fjölskyldu hefði ég veðjað á að talan væri lág. Vissulega er matarverð grín og nauðsynjar orðnar skuggalega dýrar en hver eyðir miklu í veitingar, tómstundir og sumarleyfisferðir á tímum sem þessum? Nei, nú eru tímar aðhalds! Eða ekki. Í nýjum og athyglisverðum neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins má lesa um þau sem neyta fyrir ágætis upphæðir. Samkvæmt dæmigerðu viðmiði eyðir fjögurra manna fjölskylda í Reykjavík til dæmis rúmum 600.000 kr. á mánuði. Hvernig það á að geta gengið upp þegar laun hafa ekki fylgt verðlagi eftir kreppu er mér hulin ráðgáta. Hafa svona mörg heimili þetta háar ráðstöfunartekjur eða er brúsinn borgaður með lánum og reddingum? Tölurnar í reiknivélinni segja ekki til um hvað fjölskyldan þarf til að lifa af, heldur hvað hún notar í raun. Þetta er miðgildi - helmingur fólks nær ekki upp í töluna en hinn helmingurinn eyðir … meiru. Umrædda fjölskyldan í miðjunni notar 122.000 kr. í bílinn sinn og samgöngur um hver mánaðamót og 86.000 kr. í tómstundir og afþreyingu. Leyfir hinn „dæmigerði neytandi" sér ýmislegt sem ekki gæti talist kreppulegt eða er einfaldlega svona dýrt að lifa á Íslandi? Verst að þá geta bótaþegar - að öllu óbreyttu - alls ekki búið þar. Sjálf hefði ég ekki vogað mér að spá fyrir um það að jólin 2010 - í miðri kreppu - myndu seljendur auglýsa gjafabréf til útlanda sem hentuga jólagjöf. Eða að aðrir auglýstu „harða pakka" sem kostuðu tugþúsundir. Hvað þá að jólaverslun yrði mikil, bóksala næði nýjum hæðum og bæklingar um rándýrar sólstrandarferðir hryndu inn um lúguna á nýju ári. Einhver markaður er fyrir þetta. Á Íslandi búa 318.000 hræður en þar eru 240.000 bifreiðar. Hver rekur alla þessa bíla og fyrir hvaða fé? Sumir eru í biðröð eftir mat - sumir í biðröð eftir bílastæði við Kringluna, á öðrum bíl heimilisins af tveimur. Á sama tíma verður hnípin þjóð í vanda æ feitari. Örþjóð í kreppu er merkilegt nokk ein feitasta þjóð í Evrópu. Ég sé fyrir mér fyrirsagnirnar: „67 ára gömul þjóð í harðri neyslu óttast að látast af of stórum skammti: Ætlar að láta grafa sig í risastórri myntkörfu. Sjáið myndirnar." Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Bakþankar Sigríður Víðis Jónsdóttir Mest lesið Halldór 13.09.2025 Halldór Óvelkomnar alls staðar Kristín Davíðsdóttir Skoðun Ég er eins og ég er – um heilbrigðisþjónustu við trans fólk Alma D. Möller Skoðun Frá upplausn til uppbyggingar Þór Pálsson Skoðun Hagsmunir sveitanna í vasa heildsala Anton Guðmundsson Skoðun Verið að vinna sér í haginn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Við elskum pizzur Herdís Magna Gunnarsdóttir Skoðun Furðuleg meðvirkni með fúskurum Jón Kaldal Skoðun Sýklasótt – tími og þekking skiptir máli Alma Möller Skoðun Grafið undan grunnstoð samfélagsins Skoðun
Á Íslandi er kreppa, þar er allt skelfilegt og ömurlegt og enginn hefur ráð á neinu. Eða hvað? Hefði ég átt að giska hver væri raunveruleg neysla íslenskrar fjölskyldu hefði ég veðjað á að talan væri lág. Vissulega er matarverð grín og nauðsynjar orðnar skuggalega dýrar en hver eyðir miklu í veitingar, tómstundir og sumarleyfisferðir á tímum sem þessum? Nei, nú eru tímar aðhalds! Eða ekki. Í nýjum og athyglisverðum neysluviðmiðum velferðarráðuneytisins má lesa um þau sem neyta fyrir ágætis upphæðir. Samkvæmt dæmigerðu viðmiði eyðir fjögurra manna fjölskylda í Reykjavík til dæmis rúmum 600.000 kr. á mánuði. Hvernig það á að geta gengið upp þegar laun hafa ekki fylgt verðlagi eftir kreppu er mér hulin ráðgáta. Hafa svona mörg heimili þetta háar ráðstöfunartekjur eða er brúsinn borgaður með lánum og reddingum? Tölurnar í reiknivélinni segja ekki til um hvað fjölskyldan þarf til að lifa af, heldur hvað hún notar í raun. Þetta er miðgildi - helmingur fólks nær ekki upp í töluna en hinn helmingurinn eyðir … meiru. Umrædda fjölskyldan í miðjunni notar 122.000 kr. í bílinn sinn og samgöngur um hver mánaðamót og 86.000 kr. í tómstundir og afþreyingu. Leyfir hinn „dæmigerði neytandi" sér ýmislegt sem ekki gæti talist kreppulegt eða er einfaldlega svona dýrt að lifa á Íslandi? Verst að þá geta bótaþegar - að öllu óbreyttu - alls ekki búið þar. Sjálf hefði ég ekki vogað mér að spá fyrir um það að jólin 2010 - í miðri kreppu - myndu seljendur auglýsa gjafabréf til útlanda sem hentuga jólagjöf. Eða að aðrir auglýstu „harða pakka" sem kostuðu tugþúsundir. Hvað þá að jólaverslun yrði mikil, bóksala næði nýjum hæðum og bæklingar um rándýrar sólstrandarferðir hryndu inn um lúguna á nýju ári. Einhver markaður er fyrir þetta. Á Íslandi búa 318.000 hræður en þar eru 240.000 bifreiðar. Hver rekur alla þessa bíla og fyrir hvaða fé? Sumir eru í biðröð eftir mat - sumir í biðröð eftir bílastæði við Kringluna, á öðrum bíl heimilisins af tveimur. Á sama tíma verður hnípin þjóð í vanda æ feitari. Örþjóð í kreppu er merkilegt nokk ein feitasta þjóð í Evrópu. Ég sé fyrir mér fyrirsagnirnar: „67 ára gömul þjóð í harðri neyslu óttast að látast af of stórum skammti: Ætlar að láta grafa sig í risastórri myntkörfu. Sjáið myndirnar."