Íslenski boltinn

KSÍ fær 35 milljónir í HM-bónus frá FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, er að venju rausnarlegt við aðildaþjóðir sínar og hefur nú ákveðið að gefa hverju knattspyrnusambandi 300 þúsund dollara HM-bónus en það eru um 35 milljónir íslenskra króna.

Heimsmeistarakeppnin í Suður-Afríku síðasta sumar skilaði FIFA miklum tekjum og hluti af þeim renna til að efla uppgang knattspyrnunnar út um allan heim. FIFA er samt þegar búið að veita knattspyrnusamböndunum árlegan styrk upp á 250 þúsund dollara eða 29 milljónir íslenskra króna.

Þetta þýðir að KSÍ er að fá um 64 milljóna styrk frá FIFA á þessu ári sem er mikill peningur miðað við að ÍSÍ úthlutaði samtals rúmlega 55 milljónum til allra afreksíþrótta á Íslandi þar af komu 45 milljónir króna úr Afrekssjóði ÍSÍ.

Öll 207 aðildarlönd FIFA nema eitt fá styrkinn en Brúnei er í banni og missir því af styrknum. Samkvæmt fyrirmælum FIFA eiga þessir peningar að fara í uppbyggingarstarf fótboltans í hverju landi og aðstoða við þátttöku þjóðanna í leikjum og verkefnum á vegum FIFA.

Sepp Blatter, forseti FIFA, er að leita eftir endurkjöri og hefur ekki enn fengið mótframboð en það má búast við að aðildarþjóðir FIFA séu mjög sáttar við þessa ákvörðun sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×