New York Knicks vann 106-104 sigur á Boston Celtics í fyrsta leiknum á nýju NBA-tímabili sem fram fór í Madison Square Garden í New York í dag. Carmelo Anthony var hetja New York en auk þess að skora 37 stig þá setti hann niður mikilvæg víti sextán sekúndum fyrir leikslok.
Carmelo Anthony hitti úr 10 af 17 skotum sínum og tók líka 8 fráköst en Amare Stoudemire var neð 21 stig fyrir Knicks og Toney Douglas skoraði 19 stig. New York náði mest 17 stiga forskot í hálfleik en var síðan komið tíu stigum undir í fjórða leikhlutanum. Anthony fór hinsvegar í gang á réttum tíma og New York landaði sigri.
Rajon Rondo var allt í öllu í liði Boston Celtics og skoraði 31 stig, gaf 13 stoðsendingar og stal 5 boltum. Kevin Garnett átti möguleika á því að jafna leikinn í lokin en klikkaði á lokaskotinu. Brandon Bass var með 20 stig og 11 fráköst og Ray Allen skoraði 20 stig. Garnett skoraði 15 stig.
Körfubolti