Körfubolti

Þorleifur Ólafsson: Þurfum heldur betur að læra að spila á móti svæði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorleifur Ólafsson.
Þorleifur Ólafsson. Mynd/Stefán
Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindvíkinga, skoraði mikilvægar körfur þegar Grindavík vann Lengjubikarinn í DHL-höllinni í gær. Þorleifur var ánægður með sigurinn í leikslok en ekki með leik liðsins.

„Þetta var mjög erfitt og góður sigur af því að við spiluðum illa í sókninni. Það er mjög gott að hafa unnið þetta á vörninni því við spiluðum góða vörn í restina og náðum að stoppa þá í lokin. Það er mjög táknrænt að við skyldum vinna þetta á vörninni af því að við höfum verið að spila mjög góða vörn," sagði Þorleifur.

„Ég var opinn og setti nokkur niður en ég hefði getað sett fleiri opin skot niður. Við vorum skelfilegir á móti svæðinu og það er eitthvað sem við þurfum að laga. Það verður klárlega æft að spila á móti svæði á næstu vikum," sagði Þorleifur.

„Við höfum verið að spila sóknina okkar vel upp á síðkastið og liðin hafa verið í erfiðleikum með okkur einn á einn. Þau hafa því þurft að fara í svæðisvörn. Við höfum ekki spilað nógu vel á móti svæði og þurfum bara að laga það," sagði Þorleifur.

„Það var sætt að vinna með einu stigi. Það er pressa á okkur að standa okkur og við erum að reyna að "fíla" það að vera með pressu. Við erum með gott lið og ætlum okkur að vinna en þetta er bara Lengjubikarinn og við erum ekkert búnir að vinna neitt ennþá," sagði Þorleifur.

„Þetta er einn titill í hús sem er bara fínt en þetta er ekki einn af þessu stóru titlum sem við viljum fá. Ef við ætlum að ná þeim þá þurfum við heldur betur að læra að spila á móti svæði," sagði Þorleifur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×