Fótbolti

Ferguson svarar Roy Keane fullum hálsi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, gefur ekki mikið fyrir þá gagnrýni sem Roy Keane, fyrrum fyrirliði United, veitti liðinu eftir tapið gegn Basel í Meistaradeild Evrópu í gær.

United mátti ekki tapa fyrir Basel í gær en lokatölur urðu 2-1 fyrir þá svissnesku, sem komust 2-0 yfir í leiknum. Phil Jones klóraði í bakkann skömmu fyrir leikslok fyrir United.

Keane var sérfræðingur ITV-sjónvarpsstöðvarinnar í umfjöllun hennar um leikinn í gær og sagði að United hafi fengið það sem liðið átti skilið. Sagði hann að niðurstaðan hafi verið sérstaklega mikið áfall fyrir unga leikemnn liðsins.

„Það er mikið búið að tala um ungu leikmennina hjá United. Jones, Smalling, Young og fleiri. Allir hafa talað mjög vel um þá en þetta fyrir suma þeirra er þetta áfall. Mér fannst Ryan Giggs, sem er 37 eða 38 ára gamall, besti maður liðsins. Það er ekki endalaust hægt að stóla á hann.“

Ummæli Keane voru borin undir Ferguson eftir leikinn og viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Ég veit ekki af hverju þú ert að vitna í gagnrýnanda í sjónvarpi. Keane fékk tækifæri til að sanna sig sem knattspyrnustjóri en það er erfitt starf.“

„Þetta er hluti af fótboltanum. Maður verður að takast á við vonbrigðin líka. Vonbrigðin hafa verið notuð til að hvetja menn áfram hjá þessu félagi í langan tíma. Þessir ungu stráka munu læra af þessu og halda áfram að spila fótbolta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×