Enski boltinn

Hughes og Souness tjá sig um Tevez: Heimþrá eða skömm fótboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez
Carlos Tevez Mynd/Nordic Photos/Getty
Sky Sports fékk viðbrögð Mark Hughes og Graeme Souness við farsanum á bekk Manchester City í gær þegar Carlos Tevez virtist neita að fara inn á völlinni í 2-0 tapi City á móti Bayern Munchen í Meistaradeildinni.

„Vandamálið með Carlos er að hann saknar fjölskyldu sinnar," sagði

Mark Hughes en hann var stjóri Manchester City þegar argentínski framherjinn kom þangað.

„Það er ástæðan fyrir því af hverju að hann vill fara frá City. Það er ljóst á því sem gerðist þarna í gær að það er greinilega ekkert samband á milli leikmannsins og stjórans. Það þarf að laga það hið snarasta áður en haldið er áfram," sagði Hughes.

Graeme Souness var hinsvegar ekki mikið að leyna hneykslun sinni á litla Argentínumanninum.

„Hann er skemmt epli. Hann er að fara langt með að eyðileggja alla þá góðu vinnu sem hefur verið unnin hjá City. Hann er skömm fyrir fótboltann og í honum kristallast það sem flestum þykir að í nútíma fótbolta," sagði Graeme Souness.

„Þetta er algjörlega óásættanlegt. Hann er fótboltamaður og fær borgað fyrir það. Hann neitar að hjálpa liðsfélögum sínum og þetta snýst allt um hann, hann, hann," sagði Souness.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×