Enski boltinn

Wenger braut reglur UEFA í gær: Mátti ekki koma skilaboðum á bekkinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger í stúkunni í gær.
Arsene Wenger í stúkunni í gær. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, gæti verið í vandræðum hjá UEFA þar sem að hann skipti sér af leik sinna manna á móti Udinese í forkeppni Meistaradeildarinnar í gær. Wenger tók út leikbann í leiknum og var upp í stúku en Frakkinn sást senda skilaboð niður til Pat Rice á bekknum.

Arsenal vann 1-0 sigur á Udinese í gær og það bíður því liðsins erfitt verkefni í seinni leiknum á Ítalíu. Sigurvegarinn kemst í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en tapliðið fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Wenger var í leikbanni í gær eftir framkomu sína á síðasta tímabili eftir að Barcelona sló Arsenal út úr Meistaradeildinni. Wenger fékk einn leik í bann en nú er ekki öruggt að hann geti stjórnað Arsenal-liðinu í seinni leiknum gegn Udinese.

Wenger hélt að hann mætti koma skilaboðum á bekkinn í gegnum þriðja aðila og þjálfari aðalliðsins, Boro Primorac, bar skilaboðin á milli Wenger og Pat Rice.

Í hálfleik fékk Wenger hinsvegar skilaboð frá UEFA um að hann mætti ekki skipta sér neitt af leiknum. Wenger var allt annað en sáttur og virtist halda áfram að hringja í Primorac. UEFA mun væntanlega rannsaka málið betur í vikunni.

Wenger neitaði líka að tala við blaðamenn eftir leikinn undir þeim formerkjum að hann hlyti að vera í banni frá þeim líka. Hann gæti því að auki fengið sekt frá UEFA fyrir að bregðast fjölmiðlaskyldum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×