Viðskipti erlent

Krugman með lausnir fyrir Obama

Hagfræðiprófessorinn og Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman hefur sett fram tvær „skapandi" lausnir fyrir Barack Obama bandaríkjaforseta í deilunum um skuldaþak Bandaríkjanna. Hann segir að þessar lausnir séu innan ramma laganna.

Krugman fjallar um þetta á bloggi sínu í The New York Times. Í fyrsta lagi segir hann að hið opinbera geti slegið platínumynt að verðmæti, segjum, 1.000 milljarða dollara. Núverandi löggjöf takmarkar hvað hið opinbera má prenta af seðlum en segir ekkert til um takmörk á myntsláttu.

Í öðru lagi segir Krugman að með skapandi eignasölu, til dæmis með því að selja Seðlabanka Bandaríkjanna, mætti ná inn 1.000 milljörðum dollara. Í þeim sölusamningum yrði svo ákvæði um að hið opinbera gæti keypt þessar eignir til baka innan 90 daga á 1 dollar.

Krugman segir að hann geri sér grein fyrir að þessar lausnir gætu virst hlægilegar. En það eru deilurnar á bandaríska þinginu einnig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×