Innlent

Goslokum lýst yfir og hættuástandi aflétt



Vísindamenn Veðurstofu og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands lýstu því yfir í dag að eldgosinu í Grímsvötnum væri lokið og hafa almannavarnir nú aflétt hættustigi.

Það byraði fyrir níu dögum sem eitt öflugasta öskugos síðari tíma á Íslandi, á fyrsta sólarhringum þeyttist upp meiri aska en úr Eyjafjallajökli í fyrravor og það var helst Kötlugosið 1918 sem stóðst samjöfnuð. Flug raskaðist á Íslandi og í norðanverðri Evrópu og í Skaftárhreppi, þar sem öskufallið var mest, varð myrkur um miðjan dag. Athafnalíf milli Eldhrauns og Lómagnúps lamaðist í þrjá sólahringa, hringveginum var lokað og vatnsból menguðust á nokkrum bæjum.

Ekki er vitað til þess að nokkur maður hafi skaðast vegna hamfaranna en bændur misstu sauðfé og hesta en dýrin virðast flest hafa blindast af öskunni og drukknað í skurðum. Um miðja viku hafði dregið svo úr gosinu og birt til á ný að hreinsun gat hafist. Náttúran sá þó sjálf um mestu tiltektina með því að blása miklum hluta öskunnar úr byggðunum og á haf út og skola svo út með góðri rigningu.

Menn sjá því fram á að eftirmál þessa eldgoss verði hverfandi miðað við það sem í stefndi í upphafi. Síðustu merki um gosóróa sáust á mælum á laugardag og í dag staðfestu leiðangursmenn í ferð Jöklarannsóknafélagsins í Grímsvötn að gosinu væri lokið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×