Innlent

Ráðherrar ætla á gossvæðið

Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands ætla að fara á gossvæðið og kynna sér aðstæður um leið og samgönguleiðir opnast. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Á fundinum var farið almennt yfir stöðu mála á gossvæðinu og þær afleiðingar sem gosið hefur þegar haft eða kann að hafa á næstunni. Á fundinn komu Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn, Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavörnum og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

Samráðshópur undir stjórn Almannavarna mun í dag hefja markvissa yfirferð yfir gossvæðið og síðar í þessari viku skila stjórnvöldum skýrslu um ástandið með tillögum um viðbrögð og framkvæmdir. Ríkisstjórnin mun svo í dag og næstu daga meta afleiðingar eldgossins með fjölmörgum sérfræðingum og hagsmunaaðilum og mun í framhaldi af því taka ákvarðanir um nauðsynleg viðbrögð.

„Ríkisstjórnin vill þakka það æðruleysi sem íbúar á svæðinu, bændur, ferðaþjónustaðilar og ferðamenn hafa sýnt við erfiðar aðstæður. Þá lýsir ríkisstjórnin yfir mikilli ánægju með framlag allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóg við að stuðla að bættu öryggi og afstýra hættu frá því að gosið í Grímsvötnum hófst. Vinnubrögð þessara aðila hafa verið fumlaus og samvinna einstaklega góð," segir í tilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×