Fótbolti

Cruyff: Guardiola gæti hætt hjá Barcelona eftir úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona.
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona. Mynd/Nordic Photos/Getty
Johan Cruyff, fyrrum leikmaður og þjálfari Barcelona, telur að það séu líkur á því að Pep Guardiola hætti sem þjálfari Barcelona eftir úrslitaleik Meistaradeildarinnar sem fer fram á Wembley á morgun og þá skipti þar engu máli hvort Barcelona eða Manchester United fagni sigri í leiknum.

Hinn fertugi Guardiola hefur unnið níu stóra titla á þremur tímabilum síðan að hann tók við liði Barcelona þar á meðal hefur Barca-liðið unnið spænska meistaratitilinn öll þrjú árin. Guardiola á líka möguleika á því á morgun að gera Barcelona að Evrópumeisturum í annað skiptið á þremur árum en Barcelona vann United í úrslitaleiknum árið 2009.

„Guardiola er búinn að leggja á sig mikla vinnu undanfarin ár og það kæmi mér ekki á óvart ef hann myndi hætta eftir leikinn á laugardaginn sama hvernig leikurinn fer," sagði Johan Cruyff í viðtali hjá ítalska blaðinu Gazzetta dello Sport.

„Ef hann hættir þá verður það aðeins vegna þess að það er mjög erfitt að ráða við svona mikla pressu í langan tíma. Ég held að hann vilji þess vegna taka sér ársfrí," sagði Cruyff.

Blaðamaður Gazzetta dello Sport spurði Cruyff hver ætti að taka við Barcelona-liðinu og Johan Cruyff nefndi landa sinn Marco van Basten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×