Innlent

Mjög gott tól fyrir vísindamenn

Færanlega ratsjáin, sem flutt var í Skaftárhrepp til að mæla öskustrókinn úr Grímsvötnum, hefur gefið vísindamönnum og flugheiminum mun nákvæmari upplýsingum en áður fengust. Nú er ákveðið að ratsjáin vakti eldstöðina áfram að minnsta kosti fram í næstu viku.

Ratsjáin, sem flutt var austur í Landbrot í upphafi Grímsvatnagossins, gæti hafa þátt þátt í að forða flugfélögum heimsins og farþegum frá óþarfa fjárhagstjóni og óþægindum síðustu daga því gögnin sem frá henni hafa komið hafa gefið vísindamönnum færi á að fá betri mynd af öskumekkinum en áður.

„Hæð hans, dreifingu og útbreiðslu. Þetta veitir ýmsar upplýsingar um öskudreifingu á svæðinu. Þannig að þetta er mjög gott tól fyrir veðurfræðinga og jarðvísindamenn,“ segir Þórarinn Heiðar Harðarson, verkfræðingur á Veðurstofunni.

Í myndskeiðinu sem fylgir fréttinni sjást nokkrar myndir sem ratsjáin hefur gefið af öskumistri í kringum eldstöðina síðustu daga, en önnur ratsjá á Keflavíkurflugvelli, sem mest var treyst í Eyjafjallajökulsgosinu í fyrra, hefur ákveðna annmarka. „Geislinn frá honum þegar hann kemur að eldstöðum í þessari fjarlægð er það hátt uppi að við náum ekki þessari nákvæmni,“ segir Þórarinn Heiðar.

Veðurstofan hefur ratsjána að láni frá Ítalíu með stuðningi alþjóðaflugmálayfirvalda og nú er ákveðið að hún verði í Landbrotinu að vakta Grímsvötn, að minnsta kosti fram í næstu viku, eða svo lengi sem þurfa þykir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×