Viðskipti erlent

Forbes segir gullfótinn snúa aftur innan 5 ára

Steve Forbes aðalritstjóri Forbes tímaritsins spáir því að Bandaríkjamenn taki upp gullfótinn innan fimm ára, það er bindi aftur gengi dollarans við verð á gulli.

Þetta kemur fram í viðtali við Forbes á vefsíðunni humanevents.com. Forbes segir að endurkoma gullfótarins muni hjálpa bandarísku þjóðinni við að leysa ýmis efnahags-, fjármála- og peningastefnuleg vandamál.

Fram kemur í máli Forbes að gullfóturinn muni aðstoða við að koma stöðugleika á gengi dollarans, endurvekja traust fjárfesta á bandarískum skuldabréfum og koma í veg fyrir ábyrgðalausa eyðslu hins opinbera.

„Bandaríkjamenn notuðu gull sem grundvöllinn að virði dollarans með árangri í 180 ár áður en Richard Nixon forseti fór í tilraun til að slíta á tengslin þarna á milli uppúr 1970," segir Forbes. „Sú tilraun hefur leitt til ýmissa vandræða sem þjóðin þjáist af núna."

Fram kemur í umfjöllun vefsíðunnar að aðeins einn af væntanlegum forsetaframbjóðendum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári hafi endurkomu gullfótarins á stefnuskrá sinni. Það er Ron Paul frá Texas. Forbes telur hinsvegar líklegt að fleiri muni taka málið upp.

„Með því að taka upp gullfótinn munu Bandaríkin fjarlægjast ábyrgðalausa stefnu og fara yfir í sterkari dollar og sterkari Bandaríki," segir Forbes. „Ef dollarinn er eins góður og gull munu önnur lönd vilja kaupa hann."

Þegar Forbes talar um ábyrgðalausa stefnu á hann m.a. við nær gengdarlausa seðlaprentun Seðlabanka Bandaríkjanna frá því að kreppan skall á. Hann vitnar í að Ben Bernanke seðlabankastjóri hafi staðið á gati fyrir framan þingnefnd þegar einn nefndarmanna spurði hann hve mörgum störfum seðlaprentunin hefði skilað í Bandaríkjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×