Viðskipti erlent

Axcel með einn mesta hagnað í sögu Danmerkur

Fjárfestingarsjóðurinn Axcel skilaði hagnaði upp á 11,5 milljarða danskra kr. eða yfir 250 milljarða kr. á síðasta ári. Í frétt um málið á börsen.dk segir að um sé að ræða einn mesta hagnað á einu ári í sögu Danmerkur.

Þessi góða staða Axcel hlýtur að vera tónlist í eyrum Seðlabankans og skilanefndar Kaupþings. Í samningum þeirra um söluna á FIH bankanum í fyrra var ákvæði um að Seðlabankinn og skilanefndin gætu fengið einn milljarð danskra kr. eða um 20 milljarða kr. aukalega fyrir söluna á bankanum „ef allt fer á besta veg" eins og það var orðað. „Þessi upphæð mun koma úr sjóðnum Axcel  sem FIH á hlutdeild í ásamt raunar Nordea bankanum, Lego fjölskyldunni og hópi af þekktum fjárfestum í Danmörku,“ segir í fréttaskýringu á visir.is frá því fyrir áramótin.

Hagnaður Axcel á síðasta ári er fjórfalt meiri en hjá Carlsberg bruggverksmiðjunum og raunar hafa aðeins örfá dönsk fyrirtæki eða félög skilað jafnmiklum hagnaði á einu ári eins og t.d. Mærsk og Novo Nordisk.

Helmingur af hagnaði Axcel er vegna sölu á hlutabréfum í skartgripaframleiðandanum Pandóru þegar Pandóra  var skráð á markað í kauphöllina í Kaupmannahöfn. Hinn helmingurinn er vegna gengishagnaðar af þeim hlutum sem Axcel á enn í Pandóru. Upphaflega var átti Axcel 60% í Pandóru, seldi helminginn við skráninguna og hélt helmingnum enn í bókum sínum. Skráning Pandóru er ein sú best heppnaða í kauphöllinni frá upphafi.

Síðan Axcel var stofnaður árið 1994 hafa fjárfestar lagt 5,7 milljarða danskra kr. í sjóðinn. Hingað til hafa þeir fengið 11,4 milljarða danskra kr. til baka.  Þar að auki fá þeir greidda 1,3 milljarða danskra kr. á næstu dögum.


Tengdar fréttir

Fréttaskýring: Pandóra eykur við gjaldeyrisforðann

Mikil umfjöllun hefur verið um komandi markaðsskráningu skartgripafyrirtækisins Pandóru í dönskum fjölmiðlum í liðinni viku. Seðlabanki Íslands og skilanefnd Kaupþings eiga mikið undir, eða allt að 20 milljörðum kr., að skráningin heppnist vel. Flest bendir til að svo verði og er áhugi fjárfesta á Pandóru gríðarlegur í augnablikinu.

Axcel hagnast um 280 milljarða á Pandóru

Fjárfestingarsjóðurinn Axcel III hefur hagnast um 14 milljarða danskra kr. eða um 280 milljarða kr. á skráningu skartgripaframleiðandans Pandóru á markað í Kaupmannahöfn í dag. Meðal eigenda Axcel er FIH bankinn og munu bæði Seðlabanki Íslands og skilanefnd Kaupþings njóta góðs af ótrúlegu gengi Pandóru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×