Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, er ánægður með að bæði sínir leikmenn sem og Njarðvíkingar fái að upplifa alvöru stemningu í úrslitarimmu liðanna í Iceland Express-deild kvenna.
Rimma þessara grannliða og erkifjenda hefst klukkan 16.00 í Sláturhúsinu í Keflavík í dag og á Jón Halldór von á skemmtilegri rimmu.
„Þetta leggst vel í mig og ég hlakka til. Þetta er rosalega skemmtilegt fryri stelpurnar að fá að spila fyrir framan fullt hús af áhorfendum og að upplifa meiri tilfinningu í þessu en ef þetta hefði verið öðruvísi,“ sagði hann en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Njarðvík kom mörgum á óvart með því að vinna deildarmeistara Hamars í undanúrslitum en Jón Halldór átti alveg eins von á því.
„Ég gerði alveg eins ráð fyrir því að mæta Njarðvík í undanúrslitum. Ég var aldrei búinn að sjá Hamar fara í gegnum Njarðvíkurliðið. Hamar var að spila betur en liðið gaf efni til framan af vetri.“
Keflavík hefur þrettán sinnum orðið Íslandsmeistari en Njarðvík er að keppa til úrslita í um Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn frá upphafi.
„Við erum vissulega reynsluboltarnir í þessu einvígi en það kemur bara í ljós í fyrsta leik hvaða áhrif það hefur. Ef hausinn er rétt skrúfaður á okkur þá fer það vel en annars ekki.“
Körfubolti