Viðskipti erlent

Svalasti Porsche heimsins til sölu

Það er erfitt að ímynda sér svalari Porsche en þann sem settur verður á uppboð í Kaliforníu í sumar. Um er að ræða Porsche 911 S sem leikarinn Steve McQueen ekur í upphafsatriði myndarinnar Le Mans sem frumsýnd var árið 1971.

Le Mans er ein þekktasta kappakstursmynd sögunnar og Steve McQueen var einn svalasti leikari sögunnar. Þar að auki var McQueen þekktur fyrir ást sína á glæsibílum en hann átti m.a. samskonar Porsche og þann sem selja á og notaði hann raunar til að keyra í og úr vinnu sinni við Le Mans. Þar að auki má nefna að McQueen átti einnig Jagúar XKSS árgerð 1956, Mini Cooper S árgerð 1961, Mercedes Benz 300 SEL 6,9 árgerð 1972 og minnst einn Ferrari af gerðinni GTB/4.

Þá var einnig að finna í bílskúr McQueen bíl af gerðinni Shelby Cobra 289 en þann bíl var leikarinn með í láni frá bílasmiðnum Carrol Shelby.

Porsche 911 S sem seldur verður í sumar er í eigu Porsche safnara og mun vera mjög vel með farinn og í upprunalegu standi sínu. Það er ekkert lágmarksverð sett á þennan bíl fyrir uppboðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×