Viðskipti erlent

Vilja koma á fót risavaxinni járnnámu á Grænlandi

Breska námufélagið London Mining vill koma á fót risastórri járnnámu á Grænlandi um 150 kílómetra norðaustur af höfuðstaðnum Nuuk.

Fjallað er um málið í dönskum fjölmiðlum í morgun. Þar segir að London Mining telji að hægt sé að vinna um 15 milljónir tonna af járngrýti árlega á þessu svæði.

Verðmæti útflutningsins á járninu myndi því nema tugum milljarða króna á ári en námufélagið telur að hægt verði að vinna þetta magn af járngrýti árlega næstu 15 árin.

Talið er að um 1.000 manns muni hafa vinnu við að koma námunni í gangið en fyrir utan sjálfa vinnsluna þarf meðal annars að leggja járnbrautarspor frá námunni og byggja stórskipahöfn í næsta firði við hana.

Eftir að náman er komin í gagnið er reiknað með að 500 til 700 manns fái vinnu við sjálfa vinnsluna. Nú er beðið eftir heimild frá grænlensku heimastjórninni um að hefjast handa.

Náman gæti komið efnahagslífi Íslands til góða þar sem Flugfélag Íslands flýgur til Nuuk og reikna má með að flutningur á starfsmönnum námunnar til og frá henni fari í gegnum Ísland að talsverðu leyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×