Viðskipti erlent

Áfall fyrir Dani, landsframleiðsla dregst saman

Landsframleiðsla Danmerkur dróst saman um 0,4% milli þriðja og fjórða ársfjórðungs síðasta árs. Þetta kemur eins og áfall fyrir Dani að sögn danskra viðskipamiðla þar sem reiknað hafði verið með því að hagvöxtur yrði jákvæður um 0,4% á fjórða ársfjórðungi.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að um leið og hagstofa Danmerkur birti upplýsingar um hagvöxtinn í morgun tók C20 úrvalsvísitalan dýfu í kauphöllinni í Kaupmannahöfn en hefur nú rétt sig af að nýju.

Fyrir árið í fyrra í heild sinni jókst hagvöxtur í Danmörku um 2,1% sem er nokkuð undir spám sérfræðinga. Tölur hagstofunnar sýna að einkaneysla og fjárfestingar jukust en töluvert dró úr samneyslunni og viðskiptum við útlönd sem leiddu til þess að landsframleiðslan endaði í mínus á fjórða ársfjórðungi.

Danir koma ekki vel út í samanburðinum við nágrannalönd sín hvað hagvöxt ársins varðar. Þannig nefnir börsen m.a. að hagvöxtur í Svíþjóð varð 5,25% í fyrra og í Þýskalandi nam hann 3,6%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×