Björgólfur Thor Björgólfsson fékk 153 milljóna evra lán hjá Landsbankanum 30. september árið 2008, um viku áður en FME tók bankann yfir. Þetta jafngilti þá tæpum 24 milljörðum króna þá.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir að ekki verði séð að helstu eigendur bankans hafi haft hug á eða getu til að veita bankanum það aukna fé sem þörf var á til þess að rekstri hans yrði haldið áfram.
„Ekki verður annað ráðið en að greiðsluþrot bankans hafi blasað við á þessum tíma og því hafi Fjármálaeftirlitinu verið rétt að skipa bankanum sérstaka skilanefnd 7. október 2008," segir í skýrslunni og bætt við að lausafjárskortur í erlendri mynt hafi leitt af sér greiðsluþrot bankans.
„Ekki er að sjá að Seðlabanki Íslands hafi á nokkru stigi málsins lagt mat á það hvort Landsbankinn ætti við lausafjár- eða eiginfjárvandræði að etja. Skortur á slíku mati af hálfu Seðlabanka Íslands er aðfinnsluverður að mati rannsóknarnefndar Alþingis, ekki síst þar sem Landsbankinn var kerfislega mikilvægur og fall hans yrði því óhjákvæmilega kostnaðarsamt fyrir hagkerfið í heild sinni," segir í skýrslunni.