Lífið

De Bont vill Óttar til Kína

Óttar Guðnason Reikna má með því að Mulan verði stórt verkefni en myndin er byggð á frægu kínversku ævintýri.
Óttar Guðnason Reikna má með því að Mulan verði stórt verkefni en myndin er byggð á frægu kínversku ævintýri.

Óttar Guðnason er á leið til Kína. Þar mun hann taka upp stórmynd með Jan De Bont.

Hollenski kvikmyndagerðarmaðurinn Jan De Bont hefur ráðið til sín íslenska kvikmyndatökumanninn Óttar Guðnason til að gera kvikmynd eftir kínverska ævintýrinu Mulan. Þetta kom fram á vef imdb.com í gær. Kínverska leikkonan Ziyi Zhang mun leika aðalhlutverkið en hún lék aðalhlutverkið í hinni mögnuðu Crouching Tiger, Hidden Dragon og hefur leikið í Hollywood-myndum á borð við Rush Hour 2 og Horseman.

Óttar hlýtur að taka atvinnutilboðinu frá De Bont með nokkrum fyrirvara. Því De Bont hafði fengið íslenska tökumanninn til að sjá um kvikmyndatöku á stórmyndinni Stopping Power sem átti að gerast í Berlín. Búið var að ráða John Cusack í aðalhlutverkið, kaupa 150 bíla og tvær flugvélar og Óttar hafði eytt drjúgum tíma í að undirbúa tökur. En svo yfirgaf einn framleiðandi myndarinnar skipið og hætt var við hana.

Mulan-ævintýrið hefur einu sinni ratað á hvíta tjaldið en það var þá í formi teiknimyndar frá Disney-risanum. Myndin segir frá kínverskri stúlku sem bjargar lífi föður síns með því að ganga í kínverska herinn í hans stað. Samkvæmt imdb.com er ráðgert að tökur fari fram í Shanghaí en frumsýning verður 2011.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×