Fótbolti

Koscielny í lagi eftir allt saman en Djourou verður ekki með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laurent Koscielny.
Laurent Koscielny. Mynd/Nordic Photos/Getty

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var alltof fljótur á sér að afskrifa Laurent Koscielny eftir heilahristinginn hans um síðustu helgi. Koscielny átti að vera frá fram á nýtt ár en Frakkinn stóðst hinsvegar læknisskoðun í dag og verður því með á móti Partizan Belgrad í Meistaradeildinni á morgun.

Það eru þó ekki eintómar góðar fréttir því Johan Djourou mun missa af leiknum vegna meiðsla aftan í læri. Djourou er að koma til baka eftir erfið hnémeiðsli og Wenger ætlar að passa upp á hann.

„Koscielny hefur fengið grænt ljós frá læknunum og hann verður með í leiknum á morgun," sagði Arsene Wenger á blaðamannafundi í dag.

„Djourou er tæpur en við viljum ekki taka áhættu með hann og því kemur Eboue inn í hópinn fyrir hann. Annars er hópurinn eins og á móti Fulham," sagði Wenger.

Þrátt fyrir öll vandræðin með miðverðina í vetur þá ætlar Wenger ekki að kaupa varnarmann í janúar.

„Ég vona að við fáum Vermaelen til baka og þá erum við með fjóra miðverði auk þess að hafa möguleikanna á að nota (Alex) Song. Það ætti að vera nóg," sagði Wenger.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×