Viðskipti erlent

Forstjóri Iceland: Eigendurnir láta okkur í friði

Malcolm Walker forstjóri Iceland Foods verslunarkeðjunnar segir að hann og aðrir stjórnarmenn Iceland eigi mjög góð samskipti við eigendur sína, það er skilanefnd Landsbankans. „Eigendurnir láta okkur algerlega í friði og það virkar mjög vel," segir Walker í samtali við blaðið Telegraph.

Methagnaður Iceland á síðasta reikningsári sem lauk í lok mars s.l. hefur vakið töluverða athygli í breskum fjölmiðlum. Þeir fjalla allir á einhvern hátt um hið íslenska eignarhald á verslunarkeðjunni en skilanefnd Landsbankans heldur um 69% hlut og skilanefnd Glitnis á 10% hlut í keðjunni.

Walker er ánægður með rekstur Iceland á síðasta ári enda skilaði keðjan 25,5 milljarða kr. hagnaði fyrir skatt á árinu. Sjálfur segir Walker að hann hafi alls ekki hugsað sér að selja sinn hlut í Iceland. Walker ásamt öðrum helstu stjórnendum Iceland eiga rúmlega 20% hlut í keðjunni.

Fram kemur í samtalinu að árangur Iceland sé mjög góður í ljósi þess hve samkeppnin á lágvörumarkaðinum í Bretlandi hefur harnað í kjölfar kreppunnar. Walker bendir hinsvegar á að Iceland skilaði mjög góðum uppgjörum árin áður en kreppan skall á. Hann segir viðskiptalíkan Iceland hafa gert þeim kleyft að sigla í gegnum kreppuna eins vel og raun ber vitni. Líkanið felst m.a. í sterkri eiginfjárstöðu, góðu vöruúrvali, frábærri þjónustu og viðskiptavinum sem eru hliðhollir keðjunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×