Málefnaleg sjónarmið ráði Steinunn Stefánsdóttir skrifar skrifar 26. mars 2010 06:15 Frétt blaðsins í gær um mismunun við úthlutun á matargjöfum hjá Fjölskylduhjálp Íslands hefur vakið sterk viðbrögð. Því miður virðist sumum þykja réttmætt að Íslendingar njóti forgangs fram yfir útlendinga þegar matargjöfum er úthlutað. Krafan um að málefnaleg sjónarmið ráði för við úthlutun mataraðstoðar er þó sterkari. Hér á landi starfa mörg og margvísleg hjálparsamtök að mannúðarmálum. Þessi samtök gegna veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi og eru í raun ein af stoðum þess. Síst hefur dregið úr vægi starfsemi þessara samtaka eftir að harðna tók á dalnum og atvinnuleysi jókst. Innan hjálparsamtaka er af óeigingirni unnið afar þýðingarmikið sjálfboðastarf auk þess sem fyrirtæki og einstaklingar styðja af rausn við bágstödd heimili í landinu í gegnum þau. Þessi vinna er unnin í þágu mannúðar. Ábyrgð þeirra sem vinna hjálparstarf er mikil. Eftirspurn getur verið meiri en framboð og þegar margir eru um hituna myndast langar biðraðir sem leiðir til þess að fólk þarf að bíða lengi við óskemmtilegar aðstæður sem það hlýtur að teljast að standa utandyra í biðröð eftir matargjöf. Við slíkar aðstæður liggur beint við að grípa þarf til forgangsröðunar. Meta þarf hverjir eigi að ganga fyrir um úthlutun og einnig þarf að taka afstöðu til þess hvort afgreitt sé í sömu röð og fólk kemur eða hvort einhverjir hópar njóti forgangs og bíði ekki jafnlengi og aðrir í röðinni. Við þessar aðstæður skiptir höfuðmáli að málefnaleg sjónarmið ráði för; að fjölskyldur með börn fái til dæmis fremur úthlutun en pör og einstaklingar sem ekki hafa börn á framfæri, að atvinnulausir fái fremur úthlutun en þeir sem hafa vinnu, jafnvel þótt launin séu lág. Sama má segja um biðtíma í röð; að þeir sem ekki eru heilir heilsu bíði skemur en hinir sem hraustir eru og að fólk sem er með börn með sér standi ekki jafnlengi og þeir sem hafa haft tök á að koma börnum sínum fyrir. Þjóðerni fólks getur hins vegar aldrei og má ekki teljast málefnalegt sjónarmið við forgangsröðun í úthlutun. Það samrýmist á engan hátt mannúðarstarfi. Einnig er mikilvægt að þær aðferðir sem notaðar eru við forgangsröðun séu gegnsæjar þannig að skjólstæðingar viti hvaða aðferðum er beitt og hvernig. Það er grundvallaratriði að þeir sem vinna mannúðarstarf sýni skjólstæðingum fulla virðingu og að þiggjendum hjálpar sé gert kleift að halda mannlegri reisn. Í fréttum gærdagsins kom fram að framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands hyggst ekki nota þjóðerni fólks til að forgangsraða í framtíðinni, eins og gert var við úthlutun í fyrradag. Því ber að fagna og jafnframt að vona að héðan í frá verði eingöngu málefnalegum og gegnsæjum sjónarmiðum beitt þegar forgangsraða þarf við úthlutun hjá hjálparsamtökum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Frétt blaðsins í gær um mismunun við úthlutun á matargjöfum hjá Fjölskylduhjálp Íslands hefur vakið sterk viðbrögð. Því miður virðist sumum þykja réttmætt að Íslendingar njóti forgangs fram yfir útlendinga þegar matargjöfum er úthlutað. Krafan um að málefnaleg sjónarmið ráði för við úthlutun mataraðstoðar er þó sterkari. Hér á landi starfa mörg og margvísleg hjálparsamtök að mannúðarmálum. Þessi samtök gegna veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi og eru í raun ein af stoðum þess. Síst hefur dregið úr vægi starfsemi þessara samtaka eftir að harðna tók á dalnum og atvinnuleysi jókst. Innan hjálparsamtaka er af óeigingirni unnið afar þýðingarmikið sjálfboðastarf auk þess sem fyrirtæki og einstaklingar styðja af rausn við bágstödd heimili í landinu í gegnum þau. Þessi vinna er unnin í þágu mannúðar. Ábyrgð þeirra sem vinna hjálparstarf er mikil. Eftirspurn getur verið meiri en framboð og þegar margir eru um hituna myndast langar biðraðir sem leiðir til þess að fólk þarf að bíða lengi við óskemmtilegar aðstæður sem það hlýtur að teljast að standa utandyra í biðröð eftir matargjöf. Við slíkar aðstæður liggur beint við að grípa þarf til forgangsröðunar. Meta þarf hverjir eigi að ganga fyrir um úthlutun og einnig þarf að taka afstöðu til þess hvort afgreitt sé í sömu röð og fólk kemur eða hvort einhverjir hópar njóti forgangs og bíði ekki jafnlengi og aðrir í röðinni. Við þessar aðstæður skiptir höfuðmáli að málefnaleg sjónarmið ráði för; að fjölskyldur með börn fái til dæmis fremur úthlutun en pör og einstaklingar sem ekki hafa börn á framfæri, að atvinnulausir fái fremur úthlutun en þeir sem hafa vinnu, jafnvel þótt launin séu lág. Sama má segja um biðtíma í röð; að þeir sem ekki eru heilir heilsu bíði skemur en hinir sem hraustir eru og að fólk sem er með börn með sér standi ekki jafnlengi og þeir sem hafa haft tök á að koma börnum sínum fyrir. Þjóðerni fólks getur hins vegar aldrei og má ekki teljast málefnalegt sjónarmið við forgangsröðun í úthlutun. Það samrýmist á engan hátt mannúðarstarfi. Einnig er mikilvægt að þær aðferðir sem notaðar eru við forgangsröðun séu gegnsæjar þannig að skjólstæðingar viti hvaða aðferðum er beitt og hvernig. Það er grundvallaratriði að þeir sem vinna mannúðarstarf sýni skjólstæðingum fulla virðingu og að þiggjendum hjálpar sé gert kleift að halda mannlegri reisn. Í fréttum gærdagsins kom fram að framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands hyggst ekki nota þjóðerni fólks til að forgangsraða í framtíðinni, eins og gert var við úthlutun í fyrradag. Því ber að fagna og jafnframt að vona að héðan í frá verði eingöngu málefnalegum og gegnsæjum sjónarmiðum beitt þegar forgangsraða þarf við úthlutun hjá hjálparsamtökum.