Bíó og sjónvarp

Ólafur Darri leikur Guðlaug sundkappa í bíómynd

Leikur Guðlaug Ólafur Darri Ólafsson leikur aðalhlutverkið í næstu kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpinu. Ólafur sést hér með spúsu sinni, Lovísu Ósk Gunnarsdóttur dansara. Myndin er innblásin af einstæðu björgunarafreki Guðlaugs Friðþórssonar sem synti fimm kílómetra í ísköldu Atlantshafinu eftir að bát hans, Hellisey VE, hvolfdi austur af Heimaey.fréttablaðið/Daníel
Leikur Guðlaug Ólafur Darri Ólafsson leikur aðalhlutverkið í næstu kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpinu. Ólafur sést hér með spúsu sinni, Lovísu Ósk Gunnarsdóttur dansara. Myndin er innblásin af einstæðu björgunarafreki Guðlaugs Friðþórssonar sem synti fimm kílómetra í ísköldu Atlantshafinu eftir að bát hans, Hellisey VE, hvolfdi austur af Heimaey.fréttablaðið/Daníel

Ólafur Darri Ólafsson leikur aðalhlutverkið í nýjustu kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpinu. Handrit myndarinnar er sótt í samnefndan einleik Jóns Atla Jónassonar en það verk var innblásið af einstöku björgunarafreki Guðlaugs Friðþórssonar.

Guðlaugur synti fimm kílómetra og var sex tíma samfleytt í ísköldum sjónum þegar bát hans, Hellisey VE, hvolfdi skammt austur af Heimaey með þeim afleiðingum að fjórir góðir vinir hans fórust.

„Í raun er 11. mars sorgardagur hjá mér því þá missti ég fjóra skipsfélaga mína en 12. mars er upprisan og þeim degi fylgir viss hamingja þó svo tilfinningarnar séu blendnar,“ sagði Guðlaugur í samtali við Fréttablaðið þegar þess var minnst að 25 ár væru liðin frá þessu björgunarafreki.

Ólafur Darri var ansi upptekinn þegar Fréttablaðið náði tali af honum. Leikarinn viðurkenndi að hann væri ákaflega spenntur fyrir hlutverkinu og sagðist sjálfur vera ágætis sundmaður, þó ekkert eins og Guðlaugur.

„Ég held að ég sé alveg slarkfær, allavega góður í marvaða,“ segir Ólafur og bendir á að þetta afrek Guðlaugs sé í raun merkilegur hluti af sögu Íslands.

Baltasar sjálfur var hæstánægður með að hafa fengið Ólaf Darra í hlutverkið.

„Ég þurfti að fá leikara sem væri harður af sér og ég held að Ólafur sé það. Hann verður allavega að vera það,“ segir Baltasar og upplýsir meðal annars að Ólafur verði meira eða minna í vatni allt tökutímabilið. Baltasar kveðst hafa heyrt það á fólkinu í Eyjum að það sé ánægt með Ólaf í hlutverkið en Guðlaugur sjálfur hefur lítið viljað tjá sig um gerð myndarinnar við fjölmiðla.

Eins og Fréttablaðið hefur greint frá fékk Djúpið styrk frá Norræna kvikmyndasjóðnum og nýverið bættist við styrkur frá norska kvikmyndasjóðnum. Þá fékk myndin vilyrði fyrir styrk hjá íslenska kvikmyndasjóðnum.

„Handritinu hefur verið feikilega vel tekið og ég vonast bara til að komast af stað í tökur sem fyrst,“ segir Baltasar.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×