„Þetta er alveg geðveikt,“ segir tónlistarkonan Lára Rúnarsdóttir. Lag hennar I Wanna Be, sem er tekið af hennar síðustu plötu Surprise, er valið í flokkinn lag dagsins á heimasíðu breska tónlistartímaritsins Q.
Mikill fjöldi tónlistaráhugamanna skoðar síðuna á degi hverjum og því er um mjög góða kynningu að ræða fyrir Láru. Einnig fylgdi með á síðunni nýtt myndband Láru við lagið, sem Bretinn Henry Bateman leikstýrði.
Lára þakkar árangurinn fyrst og fremst öðrum Breta, umboðsmanni sínum, Nick Knowles, sem hún réð fyrir skömmu. „Þetta er allt honum að þakka, fyrir utan hvað tónlistin er skemmtileg. Það er mér að þakka,“ segir Lára og hlær.
Knowles býr hér á landi og starfaði síðast við alþjóðlegu tískuhátíðina í Reykjavík, RFF, sem var haldin í vor. „Hann kom óvart á tónleika hjá mér. Hann þekkir gítarleikarann minn og sá að þetta ætti mikla möguleika í heimalandinu hans,“ segir hún um samstarf þeirra.
Lára flýgur til Bretlands í júní þar sem hún ætlar að funda með nokkrum útgáfufyrirtækjum í von um að komast þar á samning. Í framhaldinu vonast hún til að Surprise komi út þar í landi. Hún mun einnig hita upp fyrir söngkonuna Amy McDonald 9. júní í London og spila víðs vegar um borgina í eina viku í framhaldinu.
Í júlí er síðan fyrirhuguð hringferð um Ísland. Lára hefur í nógu að snúast því næst á dagskrá er ferðalag til Danmerkur þar sem hún tekur þátt í vinnubúðum lagahöfunda í Árósum. Flestir höfundarnir koma frá Norðurlöndunum og standa búðirnar yfir í eina viku. - fb