Viðskipti erlent

JPMorgan hnyklar vöðvana, hagnaðurinn fjórfaldast

Hagnaður bandaríska stórbankans JPMorgan á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam 3,3 milljörðum dollara eða um 412 milljarðar kr. Er þetta meir en fjórfaldur hagnaður miðað við sama tímabil árið 2008.

Samkvæmt frétt um málið á Bloomberg nemur hagnaðurinn 74 sentum á hlut en bjartsýnustu spár sérfræðinga Bloomberg höfðu gert ráð fyrir 60 senta hagnaði á hlut.

Megnið af hagnaði JPMorgan kemur frá fjárfestingahluta hans þar sem peningarnir beinlínis fossuðu inn en nokkurt tap varð á viðskiptabankahlutanum. Velta JPMorgan á fjórðungnum nam 25 milljörðum dollara sem var um milljarði dollara undir spám sérfræðinga.

Reiknað er með að þessi mikli hagnaður JPMorgan gefi tóninn í uppgjörum annarra bandarískra stórbanka. Þannig er reiknað með að Goldman Sachs sýni enn meiri hagnað eða 3,36 milljarða dollara á móti tapi upp á 2,29 milljarða dollara á síðasta ársfjórðungi 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×