Handbolti

Júlíus Jónasson: Ég hefði viljað fá meira út úr þessu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Júlíus Jónasson.
Júlíus Jónasson.

Íslenska kvennalandsliðið lék um helgina tvo æfingaleiki við norska U20 landsliðið. Stelpurnar okkar eru að undirbúa sig fyrir Evrópumótið sem fram fer í Danmörku í desember.

Blaðamaður bað landsliðsþjálfarann Júlíus Jónasson um að nefna þá punkta sem hann getur tekið úr leikjunum tveimur, bæði þá jákvæðu og neikvæðu.

Fyrri leikurinn tapaðist en seinni leikurinn sem fram fór í dag endaði með jafntefli.

„Jákvæðu punktarnir eru varnarlega, sérstaklega eins og við vorum að spila í dag. Hraðaupphlaupin, fyrsta og annað tempó. Á neikvæðu nótunum var of mikið af teknískum feilum, sérstaklega í gær. Við erum að spila illa í yfirtölu, bæði í gær og í dag. Það er dýrt í svona leikjum."

Júlíus segir að þessir tveir leikir nýtist liðinu vel. „Það gerir mikið fyrir liðið bara að hittast og spjalla. Við gerðum það plús það að við æfðum og spiluðum."

Júlíus hefði þó viljað sjá jákvæðari úrslit úr leikjunum tveimur. „Við töpuðum þessu á síðustu sekúndunum í dag og misstum þetta frá okkur á síðustu mínútunum í gær. Ég hefði viljað fá meira út úr þessu," sagði Júlíus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×