Viðskipti erlent

Talið að 11 stórir bankar standist ekki álagspróf ESB

Talið er að 11 stórir evrópskir bankar muni ekki standast álagspróf ESB sem fyrirhugað er seinna í þessum mánuði. Þetta hefur viðskiptablaðið Börsen eftir háttsettum þýskum bankamanni.

Alls mun 91 stórbanki innan ESB taka þátt í álagsprófinu en það á m.a. að mæla hve vel bankarnir eru í stakk búnir til að mæta hugsanlegum áföllum í náinni framtíð. Áföllum á borð við að þurfa að afskrifa hluta af þeim eignum sínum sem liggja í ríkisskuldabréfum landa á borð við Grikkland, Spán og Portúgal.

Samkvæmt fréttinni í Börsen eru tveir stórir þýskir bankar meðal þeirra 11 sem ekki eru taldir standast álagsprófið. Samkvæmt fréttum í öðrum fjölmiðlum er Commerzbank annarr þeirra en hann hefur komið nokkuð við sögu í íslenska bankahruninu og er m.a. í hópi stærstu kröfuhafa í þrotabú Samson.

Góðu fréttirnar í Börsen fyrir Dani eru að talið er að fjórir stærstu bankar landsins munu standast álagsprófið. Þetta eru Danske Bank, Nordea, Jyske Bank og Sydbank.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×