Viðskipti erlent

Vogunarsjóðir auka skortstöður gegn breska pundinu

Breska pundið hefur fallið töluvert í dag og er nú komið í 1,50 á móti dollaranum sem er lægsta gengi pundsins gagnvart dollara undanfarna 10 mánuði. Á sama tíma berast fréttir um að vogunarsjóðir og spákaupmenn hafi aukið mjög skortstöður sínar gegn pundinu.

Í frétt um málið í Financial Times segir að samkvæmt upplýsingum frá Chicago Mercantile Exchange, sem oft eru notaðar til að greina starfsemi vogunarsjóða, voru fjárfestar með skortstöður gegn pundinu í 62,884 samningum að andvirði 6,1 milljarða punda í þar síðustu viku. Fjöldi slíkra samninga var hinsvegar 56.079 vikuna þar á undan.

Aukning á þessum veðmálum gegn pundinu kemur í kjölfar þess að áhyggjur af fjárlagahalla Bretlands fara nú vaxandi og þess að óljóst er um tímasetningar á aðgerðum Englandsbanka vegna ástandsins. Fjöldi veðmálanna nú slær metið sem sett var í október s.l.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×