Viðskipti erlent

Lindsay Lohan verður fylgdarkona Lugner í ár

Lindsay Lohan verður fylgdarkona hins 77 ára gamla austurríska milljarðamæringsins Richard Lugner á Óperuballið í Vín í ár. Áður hafa konur á borð við Paris Hilton, Pamela Anderson og Sophia Loren fylgt Lugner á þetta ball sem er hápunktur samkvæmislífsins í Vín á hverju ári.

Lugner hóf þennan sið sinn fyrir 19 árum, það er að bjóða heimsþekktum konum með sér á fyrrgreint ball. Hinsvegar gengur ekki snuðrulaust fyrir hinn aldna milljarðamæring að fá Lindsay Lohan til Austurríkis.

Lugner borgar Lohan 150.000 dollara, eða um 20 milljónir kr. fyrir viðvikið. Á móti þarf Lohan, eins og allar fyrri fylgdarkonur Lugner að eyða deginum á undan við að árita myndir í verslunarmiðstöð sem sá gamli á í Vín.

Það er komið babb í bátinn því Lohan hefur beðið Lugner um að breyta dagsetningunni á ballinu fyrir sig. Nokkuð sem aðallinn í Vín tekur ekki í mál. Þá vill Lohan ekki ákveða hvaða kjól hún verður í fyrirfram og stendur í streði við þann gamla um hvernig hún ferðast til Austurríkis.

Lohan tekur ekki í mál að fljúga til Vínar með áætlunarflugi. Einkavél skal það vera. Lugner var búinn að útvega 8 sæta einkaþotu undir Lohan en sú þótti henni of lítil þar sem hún gæti ekki lagst til svefns í henni.

Á vefsíðunni e24.no er greint frá þessum Lohan-raunum Lugner. „Ég á ekki annað val en að útvega henni aðra einkaþotu enda gengur Lohan með lausa skrúfu," segir Lugner.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×