N1 bjargar jólunum Sif Sigmarsdóttir skrifar 10. nóvember 2010 06:00 Þegar forstjóri olíurisans N1 lýsti því yfir á dögunum að íslenski bókamarkaðurinn væri staðnaður fór um okkur sem gutlum við fagið skjálfti svo ryklagið á herðunum þyrlaðist upp og köngulóarvefirnir í handarkrikunum gengu í bylgjum. Ekki reyndist þó ástæða til að örvænta yfir stöðu mála. Hugsjónafólk leynist á ótrúlegustu stöðum og hyggst bensínsalinn gerast bjargvættur bókabransans og laga ástandið. Ég sem hafði í einfeldni minni talið bissness-jöfra eins og hann einungis hafa áhuga á ljóðstöfum kauphallarinnar og hrynjandi hagnaðartalna; í stað hjarta hefðu þeir posa og í stað heila Excel-forrit. Ég roðnaði niður í tær yfir eigin fávisku og fordómum. Til að stemma stigu við stöðnun bókamarkaðarins hyggst N1 taka þátt í jólabókaflóðinu í ár. Innan um eldsneyti, tóbak, síríuslengjur og pulsur hvílir heill bókaheimsins: Ævisaga Jónínu Benediktsdóttur. Fyrirtækið hefur tryggt sér einkarétt á sölu og dreifingu bókarinnar og gangi allt að óskum verður hún eingöngu fáanleg á bensínstöðvum N1. Ástir og örlög, glæpur og refsing; ein með öllu öðlast nýja merkingu um leið og olíuforstjórinn og detox-drottningin dusta af bókabransanum sem í kjölfarið bætist í þann fjölbreytta hóp sem kjarnakonan Jónína hefur orðið til sáluhjálpar og innri hreinsunar. Það er þó eitt sem fer fyrir brjóstið á mér varðandi þessa tiltekt alla. Forstjóri N1 lætur sér ekki nægja að umbreyta aðeins bókamarkaðnum. Hann er kominn í umbótaham og næsta fórnarlamb hans eru neytendamálin. Í frétt um herlegheitin í Fréttablaðinu kom fram að skilarétti á bókum Jónínu verður öðruvísi háttað en íslenskir bókakaupendur eiga að venjast. Þar segir: „Ekki verður skilaréttur á bókunum en á móti kemur að þær verða allar númeraðar. Eftir jólin verður svo dregið úr seldum eintökum og hinir heppnu hljóta vinninga." Að happdrættum ólöstuðum leyfi ég mér að efast um ágæti þessarar nýbreytni. Þegar kemur að neytendavernd á borð við skilarétt höfum við Íslendingar löngum búið við verri kjör en nágrannaþjóðir okkar. Og enn er gengið á það sem þegar er naumt skammtað. Hvað verður það næst? „Við tryggjum ekki að pulsan sem þú kaupir hjá okkur sé ekki komin fram yfir síðasta söludag en á móti kemur að þú færð Happaþrennu með í kaupbæti sem gæti gengið upp í reikninginn frá slysavarðstofunni þurfir þú að leita til hennar með matareitrun"? Ekki veit ég hvað drottning detoxins segði við því. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sif Sigmarsdóttir Mest lesið Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun
Þegar forstjóri olíurisans N1 lýsti því yfir á dögunum að íslenski bókamarkaðurinn væri staðnaður fór um okkur sem gutlum við fagið skjálfti svo ryklagið á herðunum þyrlaðist upp og köngulóarvefirnir í handarkrikunum gengu í bylgjum. Ekki reyndist þó ástæða til að örvænta yfir stöðu mála. Hugsjónafólk leynist á ótrúlegustu stöðum og hyggst bensínsalinn gerast bjargvættur bókabransans og laga ástandið. Ég sem hafði í einfeldni minni talið bissness-jöfra eins og hann einungis hafa áhuga á ljóðstöfum kauphallarinnar og hrynjandi hagnaðartalna; í stað hjarta hefðu þeir posa og í stað heila Excel-forrit. Ég roðnaði niður í tær yfir eigin fávisku og fordómum. Til að stemma stigu við stöðnun bókamarkaðarins hyggst N1 taka þátt í jólabókaflóðinu í ár. Innan um eldsneyti, tóbak, síríuslengjur og pulsur hvílir heill bókaheimsins: Ævisaga Jónínu Benediktsdóttur. Fyrirtækið hefur tryggt sér einkarétt á sölu og dreifingu bókarinnar og gangi allt að óskum verður hún eingöngu fáanleg á bensínstöðvum N1. Ástir og örlög, glæpur og refsing; ein með öllu öðlast nýja merkingu um leið og olíuforstjórinn og detox-drottningin dusta af bókabransanum sem í kjölfarið bætist í þann fjölbreytta hóp sem kjarnakonan Jónína hefur orðið til sáluhjálpar og innri hreinsunar. Það er þó eitt sem fer fyrir brjóstið á mér varðandi þessa tiltekt alla. Forstjóri N1 lætur sér ekki nægja að umbreyta aðeins bókamarkaðnum. Hann er kominn í umbótaham og næsta fórnarlamb hans eru neytendamálin. Í frétt um herlegheitin í Fréttablaðinu kom fram að skilarétti á bókum Jónínu verður öðruvísi háttað en íslenskir bókakaupendur eiga að venjast. Þar segir: „Ekki verður skilaréttur á bókunum en á móti kemur að þær verða allar númeraðar. Eftir jólin verður svo dregið úr seldum eintökum og hinir heppnu hljóta vinninga." Að happdrættum ólöstuðum leyfi ég mér að efast um ágæti þessarar nýbreytni. Þegar kemur að neytendavernd á borð við skilarétt höfum við Íslendingar löngum búið við verri kjör en nágrannaþjóðir okkar. Og enn er gengið á það sem þegar er naumt skammtað. Hvað verður það næst? „Við tryggjum ekki að pulsan sem þú kaupir hjá okkur sé ekki komin fram yfir síðasta söludag en á móti kemur að þú færð Happaþrennu með í kaupbæti sem gæti gengið upp í reikninginn frá slysavarðstofunni þurfir þú að leita til hennar með matareitrun"? Ekki veit ég hvað drottning detoxins segði við því.