Sport

Garrigus fékk um 100 milljónir kr. fyrir sigurinn

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Robert Garrigus fagnar hér sigrinum.
Robert Garrigus fagnar hér sigrinum. AP

Robert Garrigus tryggði sér keppnisrétt á PGA mótaröðinni í golfi næstu tvö keppnistímabilin með því að sigra á Children's Miracle meistaramótinu sem lauk í gær.

Garrigus var þremur höggum betri en Roland Thatcher, en Garrigus lék lokahringinn á 8 höggum undir pari og samtals á 21 höggi undir pari. Thatcher var með fimm högga forskot á Garrigus fyrir lokahringinn.

Garrigus vakti mikla athygli fyrr á þessu ári þegar hann gerði sig sekan um ótrúleg mistök á PGA móti í Memphis á lokahringnum. Þar var hann með þriggja högga forskot fyrir lokaholuna en hann lék hana á þremur höggum yfir pari og tapaði síðan í bráðabana gegn Lee Westwood.

Garrigus var fyrir mótið um helgina í 122. sæti peningalistans og þurfti hann að ná góðum árangri til þess að tryggja sér áframhaldandi keppnisrétt. Aðeins 125 efstu á peningalistanum halda keppnisrétti sínum á sterkustu atvinnumótaröð heims. Fyrir sigurinn fékk Garrigus rétt um 100 milljónir kr.

Það var mikið í húfi fyrir Thatcher sem þurfti að enda í einu af tveimur efstu sætum mótsins til þess að halda keppnisrétti sínum. Hann fékk skolla á 16. og 17. flöt og virtist vera að klúðra tækifærinu. Hann fékk par á lokaholunni og þar sem að Spencer Levin fékk skolla á lokaholunni endaði Thatcher einn í öðru sæti og tryggði sér áframhaldandi keppnisrétt á PGA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×