Eyjamenn hafa ákveðið að breyta um þjálfara á handboltaliði sínu. Arnar Pétursson, leikmaður karlaliðs ÍBV í handbolta, hefur verið ráðinn þjálfari liðsins. Hann tekur við af Svavari Vignissyni sem hefur þjálfað liðið síðustu tvö ár. Þetta kemur fram á vefsíðu Eyjafrétta.
Svavar Vignisson heldur engu að síður áfram að þjálfa meistaraflokk hjá ÍBV því hann tekur við stjórnartaumunum hjá kvennaliði ÍBV.
Arnar og Svavar eru báðir uppaldir Eyjamenn og fóru báðir upp í gegnum unglingastarfið hjá félaginu.
ÍBV-liðið endaði í 3. sæti 1. deildar karla í vetur og datt síðan 0-2 út fyrir Aftureldingu í úrslitakeppninni.
