Viðskipti erlent

Verkfall veldur skorti á jólasteikum í Danmörku

Gæðaeftirlitsmenn í dönskum sláturhúsum eru farnir í verkfall. Því er óljóst hvort margar danskar fjölskyldur fái hina hefðbundu svínasteik sína í hús fyrir jólin.

Fjallað var um málið í dönskum fjölmiðlum í gærkvöldi og í morgun. Ástæða verkfallsins er að Matvælaeftirlit Danmerkur, sem gæðaeftirlitið heyrir undir, hefur sagt upp nokkrum svæðisbundnum samningum við eftirlitsmennina.

Gærdagurinn var undir eðlilegum kringumstæðum sá dagur þegar álagið er hvað mest hjá starfsmönnum Danish Crown einum stærsta kjötframleiðenda Danmerkur. En vegna verkfallsins var aðeins um helmingi þeirra svína slátrað sem gert hafði verið ráð fyrir eða um 10.000 svínum.

Danish Crown lenti einnig í miklum vandræðum í gærkvöldi og nótt með að finna óslátruðum svínum samanstað því þau voru öll í flutningabílum á leið til slátrunar. Samkvæmt dönskum lögum má ekki færa svín aftur á upprunastað þegar það er eitt sinn komið á leið í sláturhús.

Ekki er vitað hvenær verkfalli eftirlitsmannanna lýkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×