Viðskipti erlent

Fyrsta tap í sögu Mærsk skipafélagsins í Danmörku

A.P. Möller-Mærsk skipafélagið skilaði gífurlegu tapi á síðasta ári eins og væntingar voru um. Þetta er fyrsta árið í sögu félagsins sem það skilar tapi en félagið á rætur sínar að rekja til upphafs síðustu aldar.

Tapið í fyrra nam 5,5 milljörðum danskra kr. eða rúmum 128 milljörðum kr. Til samanburðar má nefna að Mærsk skilaði hagnaði árið 2008 upp á 17,5 milljarða danskra kr., að því er segir í frétt á Jyllands-Posten.

Fyrir utan rekstur flutningaskipa um allan heim er Mærsk einnig umsvifamikið í olíuleit og vinnslu. Það er einkum mikið tap á flutningadeild félagsins, Mærsk Line, sem veldur afleitu uppgjöri fyrir árið í fyrra en Mærsk Line var rekin með 11,2 milljarða danskra kr. tapi.

Í tilkynningu frá Mærsk um uppgjörið segir að horfur fyrir árið í ár séu bjartar og reiknar félagið með að skila aftur hagnaði á árinu. Það er þó háð töluverði óvissu m.a. hvað varðar þróun á olíuverði og gengi dollarans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×