Forsprakki eiturlyfjahrings í Mexíkó hefur lýst því verki á hendur sér að fyrirskipa morð á bandarískum ræðismanni, Lesley Enriquez, og eiginmanni hennar sökum þess að hún hafi veitt andstæðingum hans vegabréf í landamæraborginni Ciudad Juarez.
Maðurinn heitir Jesus Ernesto Chavez og var handtekinn í síðustu viku. Er hann leiðtogi hóps leynimorðingja sem vinna fyrir gengi, samkvæmt fíkniefnadeild lögreglunnar í landinu.
Lögreglan staðfestir orð Chavez um að hafa fyrirskipað morðið á Enriquez og eiginmanni hennar, sem framið var 13. mars. Enriquez var gengin fjóra mánuði með barn þeirra hjóna, en þau voru bæði skotin til bana í bifreið sinni á leið heim úr afmælisveislu. Sjö mánaða gömul dóttir þeirra fannst grátandi í aftursætinu í kjölfarið.
Jorge Alberto Salcido, eiginmaður annars bandarísks ræðismanns, var einnig skotinn til bana í bíl sínum eftir að hann yfirgaf sömu afmælisveislu.
Átök samtaka Chavez við aðra fíkniefnahringi í borginni hafa gert Ciudad Juarez að einni hættulegustu borg í heimi. Rúmlega 2.600 manns voru myrtir á síðasta ári, en íbúar borgarinnar eru 1,3 milljónir. - sv