Handbolti

Úrslitaleikur Vals og Akureyrar í kvöld - Hvernig verður mætt í Vodafone-höllina?

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Árni Þór Sigtryggsson sækir að marki Vals í fyrsta leik liðanna, Sigurður Eggertsson er til varnar vinstra megin.
Árni Þór Sigtryggsson sækir að marki Vals í fyrsta leik liðanna, Sigurður Eggertsson er til varnar vinstra megin. Fréttablaðið/Daníel
Valur og Akureyri mætast í kvöld í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni N-1 deildar karla í handbolta. Um hreinan úrslitaleik er að ræða um sæti í úrslitarimmunni við Hauka.

Akureyri vann fyrsta leikinn 24-27 í Vodafone-höllinni en Valur svaraði fyrir sig fyrir norðan með 25-31 sigri. Spennan fyrir leikinn í kvöld er mikil en athyglisvert verður að sjá mætinguna í höllina.

Vandræðalega fáir áhorfendur létu sjá sig á sumardaginn fyrsta í fyrsta leik liðanna. Þegar lið Vals var kynnt voru ljósins slökkt og kastarar lýstu upp hvern leikmann en aðeins örfáir áhorfendur voru mættir í höllina.

„Það er vonandi að einhver mæti á næsta leik," sagði Sigurður Eggertsson eftir leikinn á laugardagskvöldið. Bæði hann og Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari stungu upp á því að spila leikinn bara á Akureyri en þar voru um 1000 manns mættir á leikinn í frábærri stemningu.

„Ef við mætum trylltir í leikinn eigum við að vinna. Ef við skítum á okkur spilum við hver í sínu horni en ef við spilum sem lið erum við góðir. „Það er stundum leiðinlegt að horfa á okkur en það var gaman í dag held ég," sagði Sigurður jafnframt eftir leikinn.

„Við erum á góðu skriði þó svo að við höfum tapað síðast. Við erum enn með góða leikmenn fyrir utan liðið en þetta er að koma. Meira að segja Fúsi feiti (innsk, Sigfús Sigurðsson) er kominn í gang. Hann var góður í leiknum."

Leikurinn hefst klukkan 19.30.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×