Viðskipti erlent

Spáir hálfri milljón atvinnulausra í Danmörku í ár

Helge J. Pedersen aðalhagfræðingur Nordea bankans spáir því að hálf milljón Dana muni verða atvinnulausir á þessu ári, að hluta eða öllu leyti. Þetta byggir Pedersen á nýjum tölum frá hagstofu Danmerkur.

Samkvæmt tölum hagstofunnar jókst skráð atvinnuleysi í Danmörku um 88% milli áranna 2008 og 2009. Alls voru meir en 380.000 Danir skráðir atvinnulausir í fyrra í lengri eða skemmri tíma, það er frá nokkrum dögum upp í nokkra mánuði. Hagstofan hefur síðan umreiknað þá tölu þannig að atvinnuleysið samsvaraði því að tæplega 100.000 manns hefði verið án atvinnu allt árið þ.e. í 12 mánuði.

Pedersen hefur reiknað það úr að allar líkur séu á að atvinnuleysið í ár muni samsvara því að um 150.000 verði án atvinnu allt árið. Og framreiknað þýðir það að 500.000 Danir muni verða fyrir barðinu á atvinnuleysi í lengri eða skemmri tíma. Þetta eru um 17% af öllu vinnufæru fólki í landinu.

„Það verður afgerandi fyrir þróun vinnumarkaðarins að langtímaatvinnuleysi verði haldið á lágu stigi," segir Pedersen. „Annars er mikil hætta á því að fjöldi vinnufærra missi samband sitt við vinnumarkaðinn og eigi í erfiðleikum með að snúa til baka þegar betri tímar fara í hönd."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×