Lífið

Tökur á Spaugstofunni hafnar

fyrsti tökudagurinn Spaugstofan í „nýju“ heimkynnunum í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg. Fyrsti tökudagurinn var í gær. fréttablaðið/valli
fyrsti tökudagurinn Spaugstofan í „nýju“ heimkynnunum í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg. Fyrsti tökudagurinn var í gær. fréttablaðið/valli

Fyrsti tökudagur Spaugstofunnar fyrir nýjan vinnuveitanda, Stöð 2, var í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg í gær en fyrsti þátturinn fer í loftið laugardaginn 9. október.

„Þetta gengur alveg lygilega vel. Þetta er fyrsti dagurinn sem við vinnum með nýju fólki. Það er nýtt fólk á öllum póstum, þ.e. fólk sem hefur ekki áður starfað við þáttinn. Það er eins og það hafi hreinlega aldrei gert neitt annað," segir Karl Ágúst Úlfsson.

„Við erum að taka upp í gamla stúdíóinu okkar þar sem við hófum ferilinn fyrir 25 árum. Við kunnum afskaplega vel við andann hérna. Hann er alveg einstakur og okkur finnst við sjá gamla kunningja í hverju horni." Á meðal þeirra sem Spaugstofumenn hafa sagt skilið við eftir áralangt samstarf í Sjónvarpinu eru þau Ragna Fossberg, sminka, og Björn Emilsson, framleiðandi.

„Þau eru búin að starfa þar lengi og það er mjög skiljanlegt að þau vilji vera þar áfram. Það kemur maður í manns staðar hér eins og annars staðar," segir Karl Ágúst. Búningar Spaugstofunnar verða líka endurnýjaðir og mun Sigríður Guðjónsdóttir sjá um búningahönnun. Einhverjir búningar verða saumaðir á ný en einnig verður leitað til búningasafna, auk þess sem nýir búningar verða keyptir.

Tökudagurinn í gær var nokkurs konar aukadagur, svona rétt til að prufukeyra Spaugstofuvélina í „nýjum" heimkynnum.

„Síðan verðum við með annan tökudag eftir viku og eftir það verður ekki aftur snúið," segir Karl Ágúst.

„Mér líst afskaplega vel á þetta. Það ríkir alveg dúndrandi stemning og allir eru í góðu formi og góðu skapi." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×