Viðskipti erlent

Álverðið dottið niður fyrir 2.000 dollara í London

Heimsmarkaðsverð á áli hefur stöðugt lækkað undanfarnar vikur og er nú komið niður yfir 2.000 dollara á tonnið á markaðinum í London. Í morgun stóð verðið í 1.982 dollurum á tonnið miðað við þriggja mánaða framvirka samninga.

Hæst fór verðið í tæpa 2.450 dollara á tonnið í upphafi síðasta mánaðar. Hafði verðið þá ekki verið hærra síðan á fyrripart ársins 2008.

Verðlækkun á áli má að stórum hluta rekja til þess hve gengi dollarans hefur verið að styrkjast. Eins og með aðrar hrávörur, t.d. olíu og gull, sem verðmældar eru í dollurum hefur gengi hans áhrif á álið.

Einnig má nefna að sökum þess hve álverðið hækkaði mikið á seinnihluta síðasta árs hafa Kínverjar endurvakið vinnslu í nokkrum álvera sinna sem lokað var þegar verðið hrundi árið 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×