Handbolti

Frakkar í úrslit eftir öruggan sigur á Dönum

Guillaume Gille skoraði fimm mörk fyrir Frakka
Guillaume Gille skoraði fimm mörk fyrir Frakka AFP

Frakkar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik HM í handbolta með öruggum 27-22 sigri á Dönum í undanúrslitum.

Jafnræði var með liðunum framan af en í stöðunni 7-7 tóku Frakkarnir öll völd á vellinum og höfðu yfir 16-11 í hálfleik.

Danska liðið náði aldrei að ógna sterkum Frökkunum í síðari hálfleik og þjálfari Dana, Ulrik Wilbek, viðurkenndi að franska liðið hefði tekið sína menn í kennslustund.

"Frakkar eru með besta lið í heimi og við náðum aldrei að ógna þeim," sagði Wilbek í samtali við TV2.

Luc Abalo var markahæstur hjá Frökkum með 7 mörk úr 8 skotum og Guillaume Gille var með 5 mörk úr 5 skotum.

Hjá danska liðinu var Klavs Bruun Jörgensen atkvæðamestur með 5 mörk og þeir Michael Knudsen og Mikkel Hansen skoruðu 4 mörk hvor.

Frakkar mæta annað hvort heimamönnum Króötum eða Pólverjum í úrslitaleik keppninnar á sunnudaginn og Danir mæta tapliðinu í þeirri viðureign í bronsleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×