Viðskipti erlent

Íbúar á Mön fá 60% af innistæðum sínum hjá Kaupþingi

Stjórnvöld á eyjunni Mön munu segja fyrir dómi á morgun að þau muni tryggja 60% af innistæðum eyjabúa hjá Singer & Friedlander banka Kaupþings á Mön.

Þetta kemur fram í frétt í blaðinu The Herald. Þar segir ennfremur að innistæðueigendurnir, sem er um 10.000 talsins, þurfi að vona að afgangur af fé þeirra náist þegar eignir þær sem bresk stjórnvöld frystu í íslensku bönkunum í London verði seldar. Herald segir að talið sé að þessar eignir nemi 402 milljónum punda eða rúmlega 75 milljörðum kr..

John Spellman fjármálastjóri Manar segir að stjórnvöld eyjanna séu að reyna að leggja mat á skaðann án þess að hafa fengið nokkrar upplýsingar frá breskum umráðamönnum bankanna.

Spellman segir að það ráðist af eignasölunni í London hvort Manarbúar fái meir en þau 60% sem stjórnvöld eyjunnar ætla að tryggja. Hann bendir svo á að þetta sé töluvert betra hlutfall en innistæðueigendur Landsbankans á Guernsey hafi fengið sem var 30% af innistæðum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×