Icelandic Water Holdings hefur gert samning um dreifingu og sölu á átöppuðu vatni úr Ölfusinu undir merkjum Icelandic Glacial við The Pantry, móðurfélag fjölmargra smávöruverslana í SA-hluta Bandaríkjanna.
Undir móðurfélagið, sem er það þriðja umsvifamesta vestanhafs, heyra 1.653 verslanir í ellefu ríkjum Bandaríkjanna. Þar á meðal eru The Pantry, Kangaroo Express, Mini Mart og Depot. Velta keðjunnar nam níu milljörðum dala á síðasta ári. Það jafngildir 1.000 milljörðum íslenskra króna.
Bandaríski netmiðillinn Food Bev, leggur áherslu á umhverfisstefnu Icelandic Water Holdings í umfjöllun sinni um samninginn.
Icelandic Water Holdings er í eigu Jóns Ólafssonar, sonar hans, Kristjáns Jónssonar, og bandaríska drykkjarvörurisans Anheuser Busch. Landnám þess hefur gengið vel víða um heim og mörg stjarnan vætt þurrar kverkar sínar með Ölfus-vatninu, svo sem á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Nú síðast drukku kvikmyndastjörnur það á Sundance-hátíðinni í Utah í Bandaríkjunum fyrir um hálfum mánuði. - jab
